Færsluflokkur: Ferðalög

Yes please!!

Skrapp til Tyrklands í viku og var að koma heim í vikunni, flaug burt úr roki og rigningu og kom heim í rok og rigningu en hvað með það maður býr nú einu sinni á landi sem kennt er við ís og er í næsta nágrenni við norðurpólinn!  Ég get ekki sagt annað en það kom mér verulega á óvart hvað það er fallegt á Tyrklandi, allavega á þeim stað sem ég var á og verð ég að viðurkenna að ég hef lítið verið í því að alfa mér upplýsingar um þetta blessaða land sem maður eiginlega þekkir bara í gegnum Soffíu Hansen, og svo veit maður að Istanbul er höfuðborgin, en ég hélt að þetta væri bara eyðimörk en það er nú aldeilis ekki það er svo gróðursælt og fallegt þarna að maður bara gapti.  Við gistum á þriggja stjörnu hóteli í Marmaris sem er nánast við ströndina og var allt eins og það átti að vera.  Tyrkir eru alveg ótrúlega skemmtilegir, starfsfólkið á hótelinu var vingjarnlegt og vildi allt fyrir mann gera sem er alveg öfugt við t.d. Spánverjanna sem mér finnst persónulega upp til hópa dónalegir og hrokafullir!  Tyrkir eru samt engir englar, í fyrsta lagi eru þeir allir mjög harðir sölumenn og margir eru nánast óheiðarlegir en það er í þínum höndum að sjá í gegnum það og man ég að í rútunni frá flugvellinum bað fararstjórinn okkur að fara varlega í það að versla leður og skartgripi en Tyrkir eru sérfræðingar í því að gera eftirlíkingar af vörum af því tagi.  Í öðru lagi þá eru þeir ekki bara harðir sölumenn heldur eru þeir líka mjög ágengir og nánast gleypa mann ef maður svo lítið sem slysast til að líta í augun á þeim, en oftast þurfti ekki neitt annað en að ganga fram hjá verslun eða veitingastað og þá var byrjað........ “come lock my store, my friend  I give you good price”!( á bjagaðri og vitlausri málfræðilegri ensku)  og oftast var tekið í hendinna á manni og ef maður sýndi ekki áhuga þá var haldið áfram  “excuse me sir were you from”?  en lang fyndnast fannst mér þegar þeir hrópuðu “YES PLEASE”!! til að vekja á sér athygli...yes please! hvað er það?  JÁ GERÐU ÞAÐ!  (gaman að sjá hvernig það mundi virka t.d. í Elko)....en allt mjög vinalegt en stundum svolítið örvæntingarfullt og var mér oft hugsað til Gunnars Andra og hans ágæta söluskóla sem hann rekur, því þarna þyrfti að taka nánast 99% af liðinu og þjálfa upp á nýtt.  Þetta er samt allt sem maður hefur í hendi sér ef maður er ákveðin og lærir að sjá muninn á því sem er “fake” og því sem er ekta, og maður er fljótur að átta sig á muninum ef maður nennir að hafa sig eftir því en ég skemmti mér konunglega við að prútta og sjá hvað maður komst langt og gaman var að sjá viðbrögðin þegar maður nefndi eitthvað fáráðlegt verð þegar maður vissi að um “fake” vöru var um að ræða, sumir urðu nánast reiðir, aðrir fóru að hlægja, en sumir urðu bara sárir og hélt ég að sumir ætluðu að fara að gráta. 

 

            Að fara út að borða í Marmaris er ævintýri líkast, þegar þú gengur til dæmis á “Bar street” er barist um athygli þína eins og ég lýsti hér á undan og þér boðið upp á hinar og þessar kræsingar á misjöfnum stöðum þó, en okkur tókst að borða á mjög góðum stöðum þar sem maturinn var mjög góður og ódýr, við vorum samt oft í samfloti við vinarfólk okkar sem voru búin að vera í viku áður en við komum og gátu leiðbeint okkur hvar best væri að fara að borða. 

            Veðrið var frábært, en stundum dálítið heitt og fór hitinn stundum í 38° á þeim tíma sem við vorum þarna en það er ekki mikil raki, ég heyrði það að hitinn þarna í júlí og ágúst gæti stundum farið langt upp í 50° þegar heitast verður,mér finnst allt í lagi að vera í smá hita enda er það smá tilbreyting frá ísskápshitanum sem ríkir hér megnið af árinu. 

            Niðurstaða mín með þessum orðum eru þessi Tyrkland(Marmaris) er frábær staður til að sækja, þú getur étið góðan mat fyrir lítið, skoðað þig um og verslað, skemmt þér á klúbbum og síðast en ekki síst legið í sólbaði í fallegu umhverfi......yfir og út!!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband