Færsluflokkur: Dægurmál

Allir latir í Latabæ.....

Eftir mjög stutta umhugsun í dag tók Helgi Kr. Jakobsson þá ákvörðun að fresta allri hreyfingu þangað til í byrjun feb.  Að sögn Helga hefur ótímabær leti sett strik í reikninginn, haft var eftir honum að þetta sé það stærsta strik sem hann hefur séð lengi!  "það hefur verið nóg að gera í dvd glápi, svo ekki sé talað um tíman sem hefur farið í að skjótast í KFC" sagði Helgi að vonum nokkuð vonsvikinn með árangurinn! "ég hef undanfarið reynt að taka stóran sveig framhjá vídeóleigunni og hef verið í viðræðum um að láta loka KFC...allvegana hérna í Hafnarfirði"!   Að lokum sagði Helgi að þetta ætti í sjálfu sér ekki að koma að sök því hann væri eiginlega búinn að sjá allt sem er í boði á vídeóleigunni "ég fer að koma mér af stað fljótlega!!"  sagði Helgi og var rokinn í burtu með poka merktan KFC........


Sumardagurinn fyrsti á 905 kr. !

Skrapp og fékk mér kaffibolla (Sviss Mokka) og kökusneið á kaffihúsi í dag.  Ég var rukkaður um 905 kr.!!!!   Kaffið á kr. 305 og einkvað í kringum 50 ml. og kökusneiðin var svona um 80 gr. á 600 kr.   Ég borgaði þegjandi og hljóðalaust enda geri ég mig grein fyrir því að það kostar að reka kaffihús.  Þegar ég ætlaði að setjast þá voru flest öll borð upptekin, nema fáein sem ekki var búið að þrífa. 

 

Ég settist við eitt þeirra og ákvað að bíða efir veitingunum sem ég hafði keypt mér og bjóst við að það kæmi starfsmaður að þrífa borðið.  Eftir nokkrar mínútur gafst ég upp á því að bíða og tók allt draslið sjálfur af borðinu og færði það yfir á annað og sópaði nett af borðinu, tók svo til við að lesa blöðin. 

 

Þegar ég var búinn að lesa dágóða stund fór ég að líta eftir veitingunum sem ég hafði pantað mér, og tók ég þá eftir því að það voru þrír starfsmenn á vakt.  Eftir nokkrar mínútur í viðbót birtist loksins einn starfsmaðurinn með kræsingarnar sem ég hafði verslað.  Þegar ég fékk mér bita af kökunni þá uppgötvaði ég það að kakan var gömul, þurr og geymslubragð af henni og eftir tvo bita ýti ég henni frá mér.  Á meðan ég kláraði þessa 50 ml af kaffi, hugsaði ég með mér, fyrir hvað var ég að borga!

Ég er ekki nískur, en ég veit að 80% af þessum 905 kr. sem ég borgaði, er gjald fyrir þjónustu, (fyrir utan að kakan var bökuð fyrir mig og kaffið lagað) Hin 20% fara í efniskostnað og skatt.  Þjónustan var engin, (tók sjálfur af borðinu) og kakan var svo að segja ónýt.  Þannig að ég borgaði 905 kr. fyrir kaffibolla. 

 

Ég skil ekki þetta metnaðarleysi sem tröllríður öllum fyrirtækum í þjónustugreininni,  að hafa þrjá starfsmenn þegar brjálað er að gera,  og bjóða upp á gamla köku á sjálfan sumardaginn fyrsta!


Hroki!

 

            Fyrir svona tólf til fimmtán árum síðan þegar ég var mjög ungur og vitlaus þá átti ég til að detta í hroka sem gat byrgt mér sýn og fengið mig til að taka rangar ákvarðanir, sem ég ætla ekki að fara alveg út í hér en eitt af því sem ég gat endalaust set út á var tónlistasmekkur hjá öðru fólki.  Á þessum tíma var “grudge...ið” að ryðja sér til rúms og platan ,,Smells like teen spirit” seldist í bílförmum.  Hins vegar var ég að hlusta mikið á bresku bylgjuna, hljómsveitir eins og Primal scream, Stone Roses  sem síðar átti eftir að breytast í “britpopp” með hljómsveitum á borð við Oasis, Pulp o.fl. en ég hlustaði á alla tegund af tónlist nema.....og takið eftir !!!!!......nema slæma tónlist! Og hvað kallaði ég slæma tónlist, jú tónlist sem var spiluð á t.d. Bylgjunni og Fm-957.  Ég man að ég hataði hljómsveitir eins og Sálina Hans Jóns Míns og ég hataði hana alveg sérstaklega út af því að hún var vinsæl popphljómsveit sem spilaði ekki djúpt þenkjandi þunglyndisrokk eða hástemmd taktfast Manchester “groove” eins og piltararnir í Happy Mondays voru þekktir fyrir,  heldur spiluðu þeir píkupopp, sem tuttugu og eitthvað ára gamall töffari frá Reykjavík gat ekki látið heyrast að hann væri að hlusta á. 

            Ef við horfum lengra aftur í tímann, svona eins og tuttugu ár aftur í tíman þegar kallinn var bara táningur þá var annað upp á teningnum.  Þá var “eight..tísið” í algleymingi og drengurinn gekk um með blásið hár og bretti upp ermarnar á leðurjakkanum, sem voru með böndum, og tróð buxnaskálmunum í hvítu sportskokkana sem tóku sér vel út í Top Ten Adidas körfubolta skónum.  Já ég var Duran Duran aðdáandi og uppáhalds hljómsveitin mín var.......................já hún var A-ha, en hvað gerðist? 

            Þegar ég var tólf ára kom píanó inn á heimilið sem mamma ætlaði að geyma fyrir vinkonu sína sem var að flytja til Ástralíu.  Ég fór að glamra á það og þegar árin liðu var ég allt í einu farinn að pikka upp lög eftir eyranu! og eitt leiddi af öðru og á nokkrum tímabilum fram að þessu hef ég stundum starfað sem tónlistarmaður, hef verið í mörgum hljómsveitum sem aldrei hafa náð að meika það eins og maður segir á góðri íslensku, og ég hef alltaf verið að semja tónlist.  Ég semsagt taldi mig trú um það að fyrst að ég spilaði á hljóðfæri og kynni að semja tónlist þá vissi ég betur!, þá vissi ég hvað góð tónlist væri og hvað vond tónlist væri, ég fór að telja mér trú um það að tónlist og texti sem hefur enga dýpt eða fjallar ekki að minnsta kosti um einn mannlegan breyskleika væri ekki þess virði að hlusta á.  Þegar að uppblásta hárið varð að frjálslegu rokkhári og Top Ten skórnir vekju fyrir kúrekaskóm með stáltá, þá var náttúrulega ekki hægt að hlusta á a-ha og í mörg ár purkaðist ég með aðdáun mína á þeirri hljómsveit og lýsti vanþóknun minni á popptónlist almennt.  Í dag hef ég náð nokkuð góðum bata af þessum hroka sem ég hef þjást af síðustu ár. 

            Í gær 17.júní þá var ég með sex ára gömlum syni mínum að horfa á barnaskemmtunina þar sem meðal annars, Nylon flokkurinn var að skemmta, og ég verð að segja að það kom mér verulega á óvart hvað þær voru lagvissar, öruggar og geisluðu af leikgleði sem skilaði sér til allra nærstadda, þar á meðal mig sem óraði ekki fyrir því fyrir nokkrum árum að ég ætti eftir að gefa tónlist af þessari sort einhvern gaum!  En svona er nú lífið einu sinni og vona ég að þetta sé ekki merki um það að ég sé orðin gamall, heldur merki um þroska.  Já, ég hef náð það miklum bata að ég hlusta stundum á Sálina Hans Jóns Míns, og ég á tvö uppáhaldslög með þeim, ég segi öllum sem heyra vilja að a-ha sé enþá ein af uppáhaldshljómsveitin mínum, ég er bara alæta á tónlist eins og það kallast! og um daginn þegar ég sat úti bíl og var eitthvað leiður, var mér á að hækka í útvarpinu og um leið byrjaði lagið Angels með Robbie Williams og ég fékk gæsahúð,  allt í einu “heyrði” ég lagið og í dag finnst mér þetta magnað lag, hver hefði getað trúað því.......................ekki ég.....!         


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband